Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Sjónvarpið og kosningabaráttan

Samstöðubloggið mun fylgjast með kosningabaráttunni og vera með fjölmiðlarýni í því sambandi. Hér birtist fyrsta greinin.

Í gærkvöld reyndi ríkissjónvarpið að hefja kosningabaráttuna, með því að sýna sjö manns í beinni útsendingu. Þeir áttu að heita formenn eða forystumenn flokkanna, en ekkert var minnst á það að einn af þessum flokkum, að minnsta kosti, hefur ekki formann. Allt var síðan eftir því.
    Alveg síðan í október hefur mótmælahreyfingin haft algera yfirburði á öllum sviðum áróðurs, fundamenningar og frumkvæðis. Nú hafði sjónvarpið tækifæri til að taka frumkvæðið að því að móta nýja tegund kosningabaráttu, með því að taka inn eitthvað af þessari öflugu, kröftugu og frumlegu menningu sem hefur mótast nú í búsáhaldabyltingunni. Nóg er af fólki sem kann það. En nei, það var ekki gert. Óðinn Jónsson ákvað að ráða sjálfur hvernig fundurinn yrði, og um hvað yrði spurt. Árangurinn varð eftir því. Jakkafatasettin svöruðu rútínuspurningunum og ekkert nýtt kom fram ... nema reynt var að gera Bjarna Benediktsson að einhverju marktæku. Kerfissjónvarpið er sérfræðingur í svona aðgerðum, það verður að bjarga kerfinu, og við beitum til þess öllum ráðum. Hugsa þau – sýnist Samstöðublogginu.
    Þetta hlýtur að vera verulegt vandamál. Þeir sem tóku þátt í mótmælum í október-janúar urðu áþreifanlega varir við hvað ríkisfjölmiðillinn var tilbúinn til að éta upp tölur lögreglunnar um fjölda mótmælenda, og til að þegja um efni funda, alveg þangað til hreyfingin var orðin nógu öflug til að hún yrði ekki þöguð í hel. Nú ætlar kerfissjónvarpið greinilega að reka kosningabaráttu sem endurspeglar ekki neitt af því sem fólkið í landinu hefur áhyggjur af, það var ekkert spurt um hrunið, ekkert um spillinguna, ekkert um lýðræðishallann, ekkert um neitt af því sem brennur á fólkinu. Af hverju er ekki farið út úr stúdíóinu, út í samfélagið, af hverju er fólk ekki fengið á fundi, af hverju er þetta gamla, trausta kerfisform notað enn einu sinni? Jú, vegna þess að nú á að endurreisa kerfið enn einu sinni.
    Það er ekkert auðveldara en að biðja Gunnar Sigurðsson um að skipuleggja kosningafund í Háskólabíói. Hann skipulagði magnaðasta fund sem haldinn hefur verið á Íslandi – fundinn með ríkisstjórn Geirs Haarde í Háskólabíói 25. nóvember 2008. Vandamálið er að Gunnar er kominn í framboð, í Norðvesturkjördæmi, fyrir Borgarahreyfinguna. En Gunnar getur varla verið eini maðurinn sem getur skipulagt fundi á óháðum vettvangi. Að minnsta kosti þá er alveg ljóst eftir kvöldið í kvöld að RÚV ræður ekki við það mikilvæga verkefni sem er að vera miðpunktur fyrir kosningabaráttuna, og það verður að finna til þess annan vettvang.


Tilkynning frá Samtökum um lýðræði og almannahag

Samtök um lýðræði og almannahag eru samtök fólks sem er fyrst og fremst lýðræðissinnað og krefst þess að Íslandi verði hér eftir stjórnað með hagsmuni almennings í huga.

Samtökin eru óháð stjórnmálaflokkum og berjast fyrir almannahag og lýðræðis- samfélagi sem hafnar forræði og forréttindum stjórnmálaflokka samtímans. Samtökin telja augljóst að ríkisstjórnir Íslands til langs tíma og stjórnmálaflokkarnir að baki þeim hafi glatað öllum tengslum við raunverulegt líf fólksins í landinu.

Samtökin telja einnig að allir núverandi stjórnmálaflokkar séu með einum eða öðrum hætti bundnir
á klafa sérhagsmuna og/eða hugmyndafræði sem sé andstæð víðtækum almannahagsmunum og að augljóst sé að nánast öll stjórnarandstaða, hverju nafni sem hún nefnist, bíði ætíð og aðeins eftir að komast að nægtaborðinu sjálf.

Samtökin telja að nálgun stjórnvalda við uppgjör ICESAVE reikninganna og annarra skulda þjóðarbúsins erlendis sé algerlega ófær og muni valda almenningi ómældum búsifjum um ókomna framtíð og jafnvel leiða til hruns þróaðs vestræns samfélags á Íslandi.

Samtökin hafna því að ICESAVE og íslenska fjármálaútrásin hafi verið e.k. eðlileg bankastarfsemi sem beri að afgreiða með hefðbundinni gjaldþrotameðferð og krefjast þess því að ICESAVE og útrásarævintýri fjármálageirans verði afgreitt m.t.t. þess að um fjársvikamál sé að ræða.

Samtökin krefjast þess að hagsmuna almennings verði gætt í þessu máli með eftirfarandi hætti:

• Skuldir vegna ICESAVE reikningum Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki
greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um ótvíræðar skyldur Íslands.

• Rannsakað verði hvað varð um allar innlagnir á reikningana, fjármunirnir sóttir með öllum tiltækum
ráðum og þeim skilað til eigenda eftir því sem hægt er. Leitað verði aðstoðar stjórnvalda erlendis, s.s.
hjá fjármálaráðuneytum, fjármálaeftirlitum, lögregu og leyniþjónustu ef með þarf.

• Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerði persónulega ábyrgir fyrir því sem upp á vantar.

Samið verður um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands íslenska þjóðarbúsins
og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar.

Nánari upplýsingar veitir: almannahagur@gmail.com eða sími 892 0294


Fundur grasrótarinnar með AGS 10. mars 2009

Fundurinn var haldinn í Seðlabankanum 10. mars.

Fundinn sátu Árni Daníel Júlíusson og Eva Hauksdóttir af hálfu grasrótarinnar, Mark Flanagan og tveir aðrir fulltrúar af hálfu AGS og Lilja Alfreðsdóttir af hálfu Seðlabankans. Mark Flanagan hafði langmest orð fyrir AGS-nefndinni.

Það var Samstaða, bandalag grasrótarhópa sem bað um fundinn og undirbjó hann af hálfu grasrótarinnar.

Fundurinn hófst á því að allir gerðu grein fyrir sér. Því næst hófust viðræður. Grasrótin spurði og AGS svaraði. Þessi skýrsla byggir á minnispunktum sem fulltrúar grasrótarinnar tóku á fundinum.

Fyrsta spurningin var hvað skuldar Ísland? (In the opinion of IMF, how much does Iceland owe?)

Engin veit nákvæma tölu, ekki hefur verið gengið frá öllum bókhaldsatriðum varðandi hrunið. Þó er hægt að gera sér grein fyrir stóru dráttunum. Séu skuldir bankanna dregnar frá skuldar landið 24 milljarða dollara (20 milljón evrur). Þetta er miðað við skuldir landsmanna við útlendinga árið 2008 (ekki kom fram hvenær árs 2008). Skuldin er 240% af landsframleiðslu.
    Upphaflegar skuldir landsins við hrun voru ellefu sinnum hærri en árleg landsframleiðsla, en gjaldþrot bankanna þurrkuðu út megnið af því (líklega um 75% af heildinni). 95% af því tapi fellur á lánveitendur erlendis.

Hvernig eru þær skuldir reiknaðar? (How is this figure found out?)

Þetta er byggt á gagnagrunni Seðlabanka Íslands. Allar þær tölur eru gefnar út opinberlega.

Hvernig reiknar AGS með að ætti að borga þetta? (How does IMF think this should be paid? Can it be paid?)

Heildarskuldin er 24 milljarðar dollara. Frá því dragast skuldir nokkurra félaga sem eru í gjaldþroti.
    Skuld ríkisins (public sector) er 10 milljarðar dollara, 80-90% af GDP. Þessar skuldir munu verða greiddar af Íslendingum, hluti af skattfé verður notað til að greiða hana og þetta mun leiða til verulegs samdráttar í ríkisútgjöldum. Á því er enginn vafi.
    Hættan er sú að ef reynt er að afla fjár með því að skattleggja fjármagn mikið og setja upp tollmúra þá muni bresta á fjármagnsflótti, smygl muni aukast og annað í þeim dúr.

Hvað gerist ef Ísland getur ekki borgað? (What happens if Iceland is unable to pay?)

Ísland getur borgað þessa skuld, við teljum að áætlun AGS muni ganga upp. Við erum hér til að tryggja að áætlunin gangi eftir. Við munum t.d. styðja einkavæðingu, hjálpi hún til við að greiða skuldir, svo sem einkavæðingu OR og annarra orkufyrirtækja, en allt verður þá að vera mjög gegnsætt, engin einkavinavæðing og allt uppi á borðinu.
    Engin skilyrði („adjustment conditions") voru upphaflega fyrir láni AGS til Íslands, en þau skilyrði verða sett á næstu níu mánuðum, sennilega í sumar. Vandamálið er nú að ríkissjóður er rekinn með halla vegna kreppunnar, nú er hallinn 14% af GDP. Kreppan hefur leitt til þess að skatttekjur ríkissjóðs hafa lækkað mjög. Eins og áður segir þá er ekki um að ræða að Ísland muni ekki geta staðið við þær skuldbindingar sem lánið hefur í för með sér.
    Engin veð eru tekin í ríkisfyrirtækjum eða auðlindum en sendinefnd mun koma reglulega til að fylgjast með framgangi mála og ráðleggja okkur ef illa gengur.

Íslendingar vilja standa vörð um velferðarkerfið sem hefur verið byggt upp og greitt með sköttum almennings og hafna því að framlög til velferðarmála verði skorin niður svo greiða megi skuldir fjárglæframanna. (The Icelandic public feel that the welfare system - that has been built up and paid for by our taxes must be protected  - and cuts in the welfare system can not be justified by what has happened as a result of failed and immoral business practises by bankers and businessmen.)

Við erum ekki sérfræðingar á sviði velferðarkerfisins, hvorki á sviði menntamála, heilbrigðiskerfis né almannatrygginga. Aðrar alþjóðastofnanir svo sem OECD verða að koma hér að með ráðgjöf. Okkar hlið snýr einungis að efnahagsmálum. Við munum því ekki taka neina afstöðu til þess hvort þessi kerfi verða einkavædd. Við munum heldur ekki þvinga Íslendinga til að selja ríkisfyrirtæki en við munu styðja tillögur um slíkt ef okkur líst vel á þær.

Er fulltrúi AGS sammála því að bankahrunið geti hafa orðið vegna fjármálasvikamyllu? (Does it appear to the IMF representative that the bank collapse was caused by what amounts to financial pyramid scheme, an illegal operation?)

Erfitt er að segja um það. Hrunið á Íslandi er alls ekki einstakt, fjármálakerfi fleiri landa er að hrynja í þessum töluðum orðum. Það þarf að rannsaka hrunið, en hrunið var löglegt svo að segja, regluverkið var mjög opið og leyfði þann möguleika að safna miklum skuldum án raunverulegra trygginga sem síðan leiddi til hrunsins.
    Að sjálfsögðu mun fara fram rannsókn en peningarnir munu ekki fást greiddir til baka. Einnig hefur AGS áhuga á að taka á málum skattaskjóla, sem eru vandamál í alþjóðlega fjármálakerfinu.  
(Fulltrúar AGS taka því undir það sjónarmið að menn sem hafa steypt þjóðinni í skuldir með blekkingum, eigi að sæta ábyrgð. Þeir taka þó fram að þrátt fyrir ósiðlegar aðferðir hafi auðmenn haft lagaheimildir fyrir mörgum afreka sinna og telja að það verði mjög erfitt að endurheimta féð.)

Hvað gerist ef við (Íslendingar) borgum ekki þessar skuldir? Annað hvort getum það ekki eða viljum það ekki? (What if we dont pay. What will you do?)

Við höfum ekki hugleitt það mál.

Treystið þið ekki ríkisstjórninni? Hvaða tryggingar hafið þið fyrir því að lánið verði greitt til baka (Don´t you trust the government? What is the collateral?)

Það eru engar tryggingar þegar AGS veitir ríkjum lán. Við munum ekki segja fyrir um hvernig á að haga fjármálum landsins til þess að afla fjár til skuldagreiðslna. Við munum segja já þegar fram koma hugmyndir sem okkur líkar, en við tökum í raun enga ábyrgð á því. Það gerir ríkisstjórnin.

Sendinefnd grasrótarinnar lagði fram eftirfarandi yfirlýsingu á fundinum.

Íslenskur almenningur ætlar ekki að greiða skuldir auðmanna, ekki að sjá á eftir auðlindum eða fyrirtækjum í útlenda eigu, ekki að horfa upp á niðurskurð í velferðarkerfi eða öðru. Við lítum á okkur sem fulltrúa almennings, sem ekki ætlar að sætta sig við neitt af þessu. (The Icelandic common people will not pay the debts amassed by bankers and business men, they will not tolerate that the resources of the country are sold abroad, not tolerate cuts in the welfare system. We see ourselves as representatives of the common people who will not tolerate any of this.)


Viðbrögð AGS-nefndarinnar við yfirlýsingunni voru þau að í það væri í lagi að hækka skatta og halda velferðarkerfinu. Það yrði að vera ákvörðun ríkisstjórnar á hverjum tíma, AGS skiptir sér ekki af því.

Íslendingar þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að missa ráðstöfunarrétt yfir auðlindum sínum. AGS hefur aldrei farið illa með fátæk ríki eða neytt þau til að gefa frá sér ríkisfyrirtæki, einkavæða velferðarkerfið eða sölsað undir sig auðlindir þeirra. Þar sem þetta hefur gerst hafa það verið ríkisstjórnir viðkomandi landa sem hafa ákveðið að fara þá leið, án nokkurra skilyrða frá sjóðnum.

Samstöðu var síðan boðið að hafa reglulega samband við fulltrúa AGS á Íslandi, og að hitta sendinefndina á ný þegar hún kemur aftur að þremur mánuðum liðnum.



Um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og íslensk stjórnvöld

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er þekktur fyrir harkalegt framferði í efnahagsmálum. Fái hann tækifæri til þess að stýra opinberum fjárstraumum ríkja beitir hann aðferðum sem leiða til niðurskurðar í velferðarkerfi, einkavæðingu opinberrar þjónustu og annars slíks. Þetta þarf ekki að koma neinum á óvart – ráðleggingar sjóðsins, jafnvel til vestrænna ríkja, ganga á hverju ári út á það að skera þurfi niður í opinberum rekstri og einkavæða banka, fjölmiðla, heilbrigðiskerfi og menntakerfi, eða það af þessum fyrirbærum sem enn kynni að vera í eigu ríkisins. Þetta er raunar opinber stefna flestra alþjóðlegra fjármálastofnana, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, OECD o.fl. Ríki eins og Noregur og Ísland hafa getað hundsað þessar „ráðleggingar“ í krafti þess að það hefur verið byggt upp öflugt velferðarkerfi á vegum hins opinbera, sem þessar þjóðir hafa haft efni á að greiða fyrir úr eigin vasa.


    Núverandi kreppa hefur skyndilega afhjúpað innihaldsleysið í þessari stefnumótun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra alþjóðlegra peningastofnana. Sjóðurinn hefur fylgt nýklassískum hagfræðikenningum út í ystu æsar, og þær kenningar hafa fengið að spreyta sig á alþjóðavettvangi undanfarin 30 ár eða svo. Árangurinn er sá að nú er uppi almenn umræða í heiminum um að síðustu dagar kapítalismans séu runnir upp. Í stað þess að veita velsæld og ríkidæmi um allan heim hefur frjálshyggjukapítalisminn leitt til djúprar heimskreppu af því tagi sem ekki hefur sést síðan 1929-1933. Heimskreppunni hefur slegið niður með sérlega kröftugum hætti hér á landi, þannig að Ísland er orðið tákn og tilraunastöð fyrir viðbrögð við kreppunni. Augljóslega er kominn tími til að huga að forsendum alþjóðlegrar fjármálastefnu, og best er að hver byrji þá athugun heima hjá sér.


     Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var afar harkalega gagnrýndur um 1999-2001 fyrir aðferðir sínar í Austur-Asíu, og rifjað var upp hvernig sjóðurinn hafði farið með Afríkuríki og önnur þróunarríki á 9. áratug 20. aldar. Sjóðurinn lenti einnig í miklum mótvindi í Suður-Ameríku. Argentína gerði beinlínis uppreisn gegn sjóðnum og dró sig út úr alþjóðakerfi nýfrjálshyggjuhagfræði. Gagnrýnin á alþjóðahagkerfið varð mjög sýnileg með mótmælum andstæðinga kerfisins í Seattle, Genúa, Gautborg og víðar. Almennt var litið svo á að sjóðurinn hefði gert illt verra með „hjálp“ sinni og „ráðleggingum“, dýpkað kreppur í stað þess að draga úr áhrifum þeirra. Afleiðingin varð sú að mjög dró úr áhrifum sjóðsins og um skeið leit út fyrir að hann hefði lifað sitt fegursta. En þá kom bankahrunið á Íslandi, og Ísland leitaði til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðstoð.


     Á heimasíðu samtaka sem fylgjast með alþjóðafjármálastofnunum er fjallað um viðbrögð sjóðsins við þeirri beiðni (http://www.bicusa.org/en/Article.3929.aspx ). Þar segir:

The last global financial crisis that the IMF found itself in the limelight was during the Asian financial crisis, which began in 1997, and spread like a contagion through Southeast Asia and then to Russia and Latin America. The Fund is notoriously famous for having exacerbated the Asian financial crisis through its overly austere loan conditionalities to the affected countries. Has the IMF learned its lesson or will it also intensify the economic pain of this current financial crisis? What is already apparent is a certain level of duality in the IMF loan program conditions for Indonesia in 1998 versus Iceland in 2008; there is a significant difference, almost a reversal, of structural conditionality in the banking and financial sector. In Indonesia the IMF ordered the closure and/or privatization of 16 banks, whereas in Iceland, the Fund is not at all prescribing the privatization of Iceland's largest mortgage lender (called the Housing Financing Fund). Does this demonstrate that the Fund has one rule for Northern borrowers and another for Southern? Or is this a sign that the IMF may be fundamentally altering its economic positions having learned lessons from the Asian financial crisis and having a lot to prove in the current one?
   
    Það eru síðustu tvær spurningarnar sem vekja athygli, fær Ísland sérmeðferð af því að það er ríkt og hvítt, eða er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn búinn að læra af mistökum undanfarinna áratuga? Naomi Klein er ekki viss um að svo sé. Hún bendir á að skilyrði sjóðsins hafi ekkert breyst í Lettlandi (http://this.is/nei/?p=3715 ).
   
   Í Lettlandi hefur reiði almennings að miklu leyti beinst að aðhaldsaðgerðum ríkisvaldsins – fjöldauppsögnum, niðurskurði félagslegrar þjónustu og launalækkun hjá hinu opinbera – allt aðgerðir sem gripið er til, til að uppfylla skilyrði fyrir neyðarláni frá IMF (og nei, þar hefur ekkert breyst).

  Jean Paul Sartre bendir í formála að bók Frantz Fanon, The Wretched of the Earth, á að kapítalisminn hafi tvö andlit. Í heimalöndunum sé aðránið falið á bak við slæðu siðmenningar, en í nýlendunum, sem nú eru þróunarlönd, sé arðránið nakið. Þar sé ekkert á milli kúgunarinnar og þeirra kúguðu. Ofbeldi, manndráp, kynþáttahyggja og skipulegt ójafnrétti sé það ástand sem ríkir í þriðja heiminum.

   Á þeim tíma sem liðinn er síðan Sartre skrifaði formála sinn hefur heimsvaldastefnan viðhaldið efnahagslegri undirokun þriðja heimsins. Meðal þeirra verkfæra sem hún hefur notað er einmitt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Í grein Auðuns Kristbjörnssonar í Dagblaðinu Nei. er sagt frá því hvernig sjóðurinn var beinlínis notaður til að viðhalda og auka arðrán bandarískra auðhringa í Ekvador (http://this.is/nei/?p=3742). Stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í málefnum Íslands virðist benda til þess að hið tvöfalda siðgæði kapítalismans gildi áfram. Í ákveðnum, „siðmenntuðum“ löndum, helst þar sem mótmælendatrú ríkir og germönsk tungumál eru töluð, skal gríma siðmenningarinnar sitja á kapítalismanum, jafnvel þótt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ráði ferðinni. Annars staðar, í Austur-Evrópu, Suður-Ameríku, Afríku og Asíu skal gríman tekin af.

   Gagnrýni á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur sett sín spor. Raunar er það svo að eina ríkisstjórnin sem hefur sett gagnrýni á hann í stefnuskrá sína er norska ríkisstjórnin, sem nú situr. Sú ríkisstjórn er vinstri stjórn og hugmyndagrunnur hennar er að miklu leyti byggður á gagnrýni á nýfrjálshyggjuna. Í stefnuplaggi hennar, Soria-Moria yfirlýsingunni frá 20. desember 2005 segir m.a. að ríkisstjórnin skuli (http://www.regjeringen.no/nb/dep/smk/dok/rapporter_planer/Rapporter/2005/Soria-Moria-erklaringen.html?id=438515 ):

- arbeide for større åpenhet om Norges rolle i Verdensbanken og IMF, og vurdere endringer i forhold til politisk styrking og mandat for Norges rolle.
- gå inn for at Verdensbanken og IMF demokratiseres. Utviklingsland må gis langt større innflytelse blant annet ved at stemmeretten ikke utelukkende knyttes til innskutt kapital.
- lede an i arbeidet med å avvikle utestående gjeld til de fattigste landene i tråde med det internasjonale gjeldsleetinitaitivet. kostnader ved sletting av gjeld skal ikke fortrenge norsk bistand jfr den vedtatte gjeldsplanen. Det skal ikke stilles krav til privatisering som forusetning for sletting av gjeld. Arbeide for opprettelsen av en gjeldsdomstol for behandling av spørsmål om illegitim gjeld.

   Hér eru mörg athyglisverð atriði. Fyrir það fyrsta getum við litið svo á að þriðji heimurinn sé svæði sem hafi búið við kreppuástand í áratugi. Meðal þeirra ráðstafanna sem norska vinstri stjórnin leggur til er að skuldir þeirra verði felldar niður, til að létta á kreppunni. Í annan stað hugar stjórnin að stefnu Noregs sjálfs í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Lagt er til að umræðan um stefnu Noregs í sjóðnum verði opnuð, og að stjórn sjóðsins verði gerð lýðræðisleg.

   Í Noregi fjalla þrjár stofnanir í opinbera kerfinu um stefnu landsins í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Norges bank, fjármálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið.

   Ísland er í sama hópi og Noregur í AGS, hópi Norðurlanda og Eystrasaltslanda. Frjálshyggjustjórnin sem hér hefur setið ályktaði að sjálfsögðu ekki neitt um stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að minnsta kosti ekki í þá átt sem norska vinstri stjórnin gerði árið 2005. Um stefnumótun á þessu sviði sér Seðlabankinn, en forsætisráðuneytið (sem efnahagsráðuneyti) og fjármálaráðuneytið kom einnig að samskiptum við bankann. Víst er að Ísland hefur stutt nýfrjálshyggjustefnuna í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fram að þessu. Nú kemur það okkur í koll. Hefði Ísland unnið með Noregi t.d. að því að minnka áhrif nýfrjálshyggjunnar innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins stæði Ísland sjálft betur að vígi þegar það þarf að leita til sjóðsins. En engin von var til þess á meðan Davíð Oddsson réði ríkjum hér á landi með fulltingi Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, fyrst í ríkisstjórn og síðan í Seðlabanka. Vel að merkja: Hannes Hólmsteinn situr enn í bankaráði Seðlabankans.
Eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar hlýtur því að verða að breyta um stefnu í málefnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það þarf að endurskoða þá stefnu frá grunni.

Árni Daníel Júlíusson

Borgarafundur um persónukjör & kosningalög

Iðnó fimmtudagskvöldið 26. febrúar kl. 20:00

Ríkisstjórnin lofaði persónukjöri og breytingum á kosningalögum. Er það mögulegt? Samstaða –bandalag grasrótarhópa boðar til almenns borgarafundar til að fá úr því skorið.
Ræður: Þorkell Helgason - vann að núverandi kosningalögum
Ómar Ragnarsson - talsmaður persónukjörs & breytinga á kosningalögum
Fundarstjóri: Hallfríður Þórarinsdóttir - mannfræðingur
Formenn flokkana hafa verið boðaðir  á fundinn til að fá afdráttalaus svör varðandi þessi mál. Hvaða flokkar ætla að verða við kröfum almennings um persónukjör? Mikilvægt er að almenningur fái skýr svör nú þegar. Nú er tækifæri fyrir almenning að fá svör við spurningum sínum.

Sýnum samstöðu og mætum öll



Helstu stefnumál

Gripið verði til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja.

Landsmenn semji sína eigin stjórnarskrá.

Trúverðug rannsókn undir stjórn og á ábyrgð óháðra erlendra sérfræðinga á íslenska efnahagshruninu verði hrundið af stað og fari fram fyrir opnum tjöldum.

Eignir auðmanna frystar á meðan rannsókn stendur.

Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla.

Lýðræðisumbætur STRAX

  • Stjórnlagaþing í haust
  • Persónukjör
  • Tryggt verði að ný framboð fái stuðning til jafns við starfandi stjórnmálaflokka
  • Öll framboð fái sama tíma í fjölmiðlum og engar auglýsingar í ljósvakamiðlum
Nánar um lið 4 og 5 á vef Lýðveldisbyltingarinnar.

 


Samstaða

Samstaða - bandalag grasrótarhópa

Samstaða  -bandalag grasrótarhópa var félag opið öllum grasrótarhópum og einstaklingum sem vildu vinna að lýðræðisumbótum og upprætingu spillingar í stjórnkerfinu. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband